mánudagur, 31. mars 2014

Hnetusmjörskókosmöndlusnilld

Það var eitthvert síðdegið snemma á þessu ári. Ég var á leiðinni í setningafræðitíma en var heldur snemma á ferðinni. Það var rigning og bara frekar glatað veður og ég tók stefnuna á kaffistofuna í Árnagarði til að fá mér tíu dropa og safna kröftum fyrir tímann. Ég greip líka eitthvað sem ég hélt að væri svona döðlubananastykki sem Háma framleiðir. Þegar ég beit í stykkið kom í ljós að þetta var eitthvað annað, eitthvað óskiljanlega bragðgott. Þetta var einhver blanda af möndlum, hnetusmjöri, kókosolíu og fleiru sem ég kunni ekki skil á, en samsetningin varð til þess að það létti aldeilis yfir mér. Nei, það þarf ekki annað en eitthvað ætt og bragðgott til að laga daginn minn.

Á mánudaginn síðasta kom ég heim úr skólanum eftir langan skóladag. Það var ömurlegt veður og ég var gegndrepa eftir gönguna heim úr strætó. Í ofanálag var ég svöng og ennþá pínu lasin svo það var sama hvað myndi fá mér að borða, ég kæmi ekki til með að finna bragð af því úf af kvefinu. Flestir sem þekkja mig sæmilega vita að það er gífurlega fátt sem mér þykir leiðinlegra en að finna ekki bragð af mat. Þá á ég ekki við mat sem er bara almennt bragðlaus heldur það að finna ekki bragð af matnum en vita samt að hann bragðast ósköp vel. Mig langaði svo innilega í eitthvað gott að borða þetta mánudagseftirmiðdegi en úr því að mig skorti bragðskynið ákvað ég að útbúa eitthvað girnilegt sem ég gæti svo sparað þangað til bragðskynið væri komið aftur. Þá mundi ég eftir hnetusmjörskókosmöndlustykkinu í Árnagarði og fór að tína til alls konar drasl úr skápnum í eldhúsinu.

Ég setti hitt og þetta í skál, það var enginn tími fyrir mælieiningar, þetta var ekkert nema dass af hinu og þessu. Innihaldið var (ef ég man rétt):
          saxaðar möndlur
          haframjöl
          fínt kókosmjöl
          saxaðar kókosflögur
          saxaðar pekanhnetur
          hörfræ

Síðan setti ég um það bil matskeið af kókosolíu í litla skál og í örbylgjuna til að bráðna. Út í það bætti ég síðan svipuðu magni af hnetusmjöri og aftur fór það í örbylgjuofninn í smástund. Þá var komin þessi fína blanda sem var orðin passlega fljótandi til að hægt væri að blanda henni við hnetumixdraslið vandræðalaust. Svo bætti ég reyndar við svona teskeið af hnetusmjöri eftirá. Mér þótti þetta síðan ekki festast nógu vel saman svo ég greip agave-síróp og sprautaði um það bil teskeið af því út á gumsið. Svipað og með bananasmákökurnar mínar þá snerist þetta greinilega um hið fullkomna jafnvægi þurrefna og blautefna (það hlýtur að mega segja það). Að þessu loknu klessti ég blöndunni á bökunarpappír og fleygði í frysti. Um klukkustund síðar mundi ég að ég átti tvo mola eftir af 70% súkkulaðiplötunni sem ég keypti fyrir löngu. Ég rauk með þá inn í eldhús og bræddi saman við svolitla kókosolíu og dreifði þessu svo yfir frosnu klessuna sem ég skar síðan í bita og setti aftur í frystinn. Svo beið ég spennt í nokkra daga, það var erfitt og leiðinlegt.



Við systur erum strax búnar að plana að gera meira af þessu. Þetta er snilld. Bara snilld. Nú veit ég líka að ég get allt, bara ef ég er nógu svöng og örvæntingarfull eftir góðu bragði. Hið fullkomna jafnvægi sagði ég, það er eina leiðin. Ég hlakka til að prófa mig meira áfram í svona, bragðlaukarnir mínir hlakka jafnvel enn meira til. Æ, ég er svo mikil bolla að það er ekki hægt.

Nóg í bili áður en ég fer að slefa á tölvuna. Bless.

hldr


ps. Ég mæli ekki með því að taka þetta úr frysti, gleyma því og borða hálftíma seinna. 
Þá verður þetta rosa blaut klessa. Samt góð á bragðið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli