fimmtudagur, 30. janúar 2014

Veistu hvort ég má þetta?

Um daginn hafði ég rölt til vinkonu minnar til að fá lánaða skó hjá henni. Þegar ég var um það bil hálfnuð heim og var að ganga í gegn um einbýlishúsahverfi sá ég litla stelpu sem gekk hinum megin við götuna. Hún var með skólatösku á bakinu og var annars hugar á göngunni, stoppaði til að skoða laufblöð og þess háttar. Við röltum samferða hvor sínum megin götunnar litla stund þar til stelpan gekk upp tröppur að húsi sem ég gerði ráð fyrir að væri heimili hennar. Þegar ég var komin spölkorn í burtu og var farin að hugsa um annað heyrði ég kallað á mig. Þegar ég sneri mér við sá ég að stelpan var hlaupin fram hjá húsi sínu og var augljóslega að yrða á mig þar sem enginn annar var í augsýn.

Ég gekk til hennar og spurði hvað amaði að og hún tilkynnti mér smeyk að það væri enginn heima og að hún kynni ekki að vera ein heima. Ég spurði hana til nafns, sagði henni hvað ég héti og sagðist ætla að hjálpa henni. Við röltum að húsinu hennar og hún sagði mér á meðan að hún væri sko að koma allt of seint heim úr skólanum og samt væri enginn heima. Annars hugar sagði hún mér frá því að systur hennar tvær færu stundum til vinkvenna sinna og þess vegna væri líklegast enginn heima. Þar sem enginn kom til dyra ákváðum við að hringja í móður hennar en stúlkan kunni símanúmerið hennar upp á hár. Þegar ég hringdi fékk ég tilkynningu um að ekki væri næg innistæða fyrir símtalinu. Ég var ekki lengi að kippa því í lag með snjallsímatækninni en á meðan ég gerði það var eins og það rynni upp ljós fyrir stúlkunni.

"Veistu hvort ég má þetta?"

Spurningin kom óvænt en það var alveg ljóst að um leið og hún fór að velta þessu fyrir sér varð hún mun hræddari við aðstæðurnar sem hún hafði komið sér í, hún varð hálfklökk og fór að tárast. Ég átti afar erfitt með að svara spurningunni, þarna hafði hún sem sagt áttað sig á því að hún var að ræða við ókunnuga manneskju en hún hafði greinilega verið vöruð við því. Spurningin vafðist fyrir mér af því ég var augljóslega ókunnuga manneskjan þarna og það sem ég segði væri alltaf eitthvað sem hún ætti að vara sig á og setja spurningarmerki við. Ég endaði á að svara henni í flýti að ég vissi það ekki en að ég ætlaði bara að aðstoða hana og að ég væri voða góð og eitthvað þess háttar. 

Ef ég hefði verið önnur manneskja sem væri þannig þenkjandi að ég ætlaði að misnota þessar aðstæður þá hefði ég að öllum líkindum sagt nákvæmlega það sama. Þá hefði ég getað þóst hringja í móður hennar og sagt henni að hún ætti að koma með mér. Mig hryllti við því að hafa svarað henni á þennan hátt og fannst agalegt að geta ekki sannfært hana fyllilega um að ég ætlaði ekki að gera henni neitt illt.

Ég náði mér loks í inneignina og hringdi í móður stúlkunnar. Hún var skammt undan, þakkaði mér fyrir en virtist þó fremur önug en þakklát í símann. Hún sagðist verða komin eftir tvær mínútur og ég sagði dóttur hennar það. Sú varð ögn áhyggjufull á svip þegar ég fór að sýna á mér fararsnið og því bauðst ég til að bíða með henni þar til mamma hennar væri komin. Hún var því fegin og við spjölluðum á meðan við biðum og hún sagði mér meðal annars að hún væri sex ára gömul.

Þegar mamma kom brast stelpugreyið í grát, ég kvaddi og gekk heim á leið. Ég átti erfitt með að gleyma þessu og þetta sat í mér í nokkra daga. Mér fannst svo slæmt að hafa ekki getað fullvissað stúlkuna um að það væri í lagi að biðja mig um aðstoð. Ég vissi innst inni að auðvitað mátti hún þetta ekki. Hún var vissulega fljót að hugsa og fékk aðstoð frá mér en ég gat ekki annað en hugleitt það hvernig þetta hefði getað farið ef þetta hefði ekki verið ég. Þá á ég auðvitað við hvað hefði getað gerst ef einhver sem væri til dæmis haldinn barnagirnd hefði verið úti að ganga á þessum stað, á þessum tíma. 


Það sem ég hefði viljað segja við stúlkuna ef spurningin hefði ekki komið svona flatt upp á mig er eitthvað á þessa leið:

Þú verður að spyrja mömmu þína að því þegar hún kemur. Ég ætla bara að hjálpa þér og það er allt í lagi að vita ekki hvað maður á að gera þegar svona gerist í fyrsta sinn. En þegar mamma kemur skaltu spyrja hana: "Mamma, hvað á ég að gera þegar enginn er heima? Á ég að gera eins og ég gerði núna eða á ég að gera eitthvað öðruvísi?" Þú veist að það á ekki að tala við ókunnuga en við ætlum að leysa þetta saman og það verður allt í lagi. En mundu að tala við mömmu og spyrja hana svo þú vitir hvað þú átt að gera næst. Þegar maður er sex ára þá er svo margt sem maður á eftir að læra betur og þá er besta leiðin að spyrja. Ef maður gerir einhver mistök þá er best að spyrja hvernig á að gera betur og læra af því. Þú er hugrökk og dugleg að leysa vandann alveg sjálf en best væri að vita hvernig þú ættir að leysa svona mál næst.

hldr

sunnudagur, 19. janúar 2014

Ég og Kanye

Nýju ári fylgja iðulega nýir siðir og nýjar venjur (ég þurfti aðstoð BÍN við ritun þessarar setningar, það má). Margir nýta tækifærið eftir hátíðirnar í að taka til í mataræðinu og byrja að hreyfa sig. Sjálf hef ég ekki verið mikil áramótaheitakona í gegn um tíðina. Áramótaheitin mín hafa iðulega verið í andlegu formi og hvergi sett fram nema í hausnum á mér. Fyrir ári síðan einsetti ég mér það að vera ég sjálf árið 2013. Það þótti mér prýðilegt áramótaheit og mér fannst ágætt að geta sinnt því allt árið í stað þess að stefna að einhverju takmarki.


Fyrir árið 2014 hafði ég ekki hugsað mér að setja nein sérstök áramótaheit. Þegar ég rakst á þessa grein hjá Vísi fékk ég hugmynd. Ég er nú ekki mikið fyrir þennan mann en hann er víst þekktur fyrir að láta skapið hlaupa með sig í gönur. Hann ætlar að taka sig á með því að fara í neikvæðnisbindindi sem mun aðallega felast í því að hætta að ausa opinberlega úr skálum reiði sinnar yfir fólk og fyrirbæri.

Ég ætla að taka Kanye til fyrirmyndar og ætla í neikvæðnibindindi árið 2014. Ég ætla ekki að taka upp sama orð og er í fréttinni, en blaðamaður Vísis hefur þarna sett saman orðin neikvæðni og bindindi með -s- á milli. Þetta tiltekna -s- er ekki beygingarending orðsins neikvæðni líkt og sjá má hér heldur er þetta svokallaður bandstafur ef samsetta orðið er greint í svokölluð morfem. Bandstafir eru gjarnan notaðir í samsettum orðum til að gera þau þjálli og þægilegri í notkun. Dæmi um það er orðið ruslafata (rusl-a-fat-a). Þar er bandstafurinn -a- á milli orðanna rusl og fata, en glöggir sjá að þetta getur ekki verið beygingarending þar sem orðið rusl er ekki til í fleirtölu. Neikvæðnibindindi skal það vera.

Líkt og Kanye leyfi ég stundum skapinu að taka stjórn. Ég hef nú ekki verið að úthúða fólki frammi fyrir alþjóð og hef ekkert á móti Nike en þó geta ótrúlegustu hlutir slegið mig út af laginu og sett af stað óafturkallanleg bræðisköst. Ég hef snappað út af rúnstykki sem ég missti í gólfið og yfir því að kreista of mikið krem úr túpunni. Ég hef ótal sinnum grýtt fötunum mínum til og frá í herberginu mínu þegar ég finn mér ekkert til að klæðast. Svo hafa sennilega flestir bílstjórar landsins fengið að heyra það frá mér þegar þeir gefa ekki stefnuljós, það er aðeins bílrúðum að þakka að orð mín hafa ekki borist eyrum þeirra.

Ég er alls ekki stolt af þessum bræðisköstum mínum en þegar maður ætlar að laga eitthvað verður maður að horfast í augu við það. Þetta er gífurlega leiðinlegur ávani sem ég vil losa mig við. Það sem af er þessu ári hefur neikvæðnibindindið mitt bara gengið þokkalega.  Í þau skipti sem ég finn að reiðin blossar upp hef ég einfaldlega minnt mig á bindindið mitt og yfirleitt náð að halda ró minni. Um daginn hellti vinkona mín til dæmis yfir mig heilum bjór á Prikinu og ég bara hló og hélt áfram með lífið. Það er nefnilega svo hrikalega leiðinlegt að láta svona óþarfa neikvæðni skemma fyrir sér góðar stundir. Ég þarf líka bara að sætta mig við það að ég geri mistök og það er allt í lagi. 

Með jákvæðnikveðju,
hldr

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Af hátíðum og mat

Bráðum fara blessuð jólin, eða þau gerðu það víst í gær. Mikið agalega gerði ég lítið yfir hátíðirnar, ég svaf heil ósköp og borðaði meira en ég kæri mig um að rifja upp. Jóhann reyndi hvað hann gat að hamra því inn í hausinn minn að jólafrí væru til þess gerð að slappa af og gera ekkert en ég átti stundum erfitt með það. 

Ég eyddi aðfangadegi heima með fjölskyldunni þar sem við breyttum út af hefðinni í matarmálum sem var afar ánægjulegt. Svo fögnuðum við Jóhann áramótum á Bergþórshvoli með fjölskyldunni hans. Mikið var það allt saman huggulegt og ljúft.

Yfir hátíðirnar fékk ég ábendingar um það að matur er sennilega mitt helsta áhugamál. Ég held að það sé heldur betur eitthvað til í því. Mér þykir fátt skemmtilegra en að borða góðan mat og held að ég þurfi bara að spreyta mig meira á því að búa svoleiðis til. Það er nú reyndar alveg stórmerkilegt því ég var alræmdur matargikkur fyrir alls ekki svo löngu, nú er það liðin tíð. Jóhann lagði til að ég hætti með þetta blogg og startaði matarbloggi í staðinn svo ég geti skrifað um matarupplifanir mínar í stað þess að íþyngja honum með þeim. Ég held nú samt að þetta verði tæpast matarblogg en ég hef nú oft hugleitt að henda inn bloggi um eitthvað ætt. Kannski verður þetta bara matarblogg. Hver veit.

Við systurnar gerðum konfekt fyrir þessi jól en við erum nánast reynslulausar á því sviði. Ég gerði að vísu frumraun í konfektgerð fyrir tveimur árum sem heppnaðist ágætlega en í ár heppnaðist það enn betur. Við gerðum nokkrar sortir en mér þótti einna best þetta konfekt hér:




Þetta eru eins konar döðlukókosappelsínukúlur hjúpaðar hvítu súkkulaði og velt upp úr kókos. Uppskriftina af þessu konfekti fann ég upphaflega hér og hljómar hún svo:
     
       125g kókosflögur
       200g möndlur
       350g döðlur
       2-3 msk rifið appelsínuhýði


Þessu er öllu blandað vandlega saman í matvinnsluvél. Eða öllu heldur blanda þeir sem eiga matvinnsluvél þessu saman í slíkri en aðrir eyðileggja nánast KitchenAid blandara heimilisins eða kjánast eitthvað með töfrasprota á döðlurnar. Allar aðferðirnar virka samt. Svo eru myndaðar litlar kúlur úr gumsinu, mér finnst best að hafa þær litlar svo ég fái margar úr uppskriftinni. 

Ég hef tvisvar sinnum hjúpað kúlurnar með hvítu súkkulaði og prófaði núna að velta súkkulaðinu upp úr kókos að lokum. Þetta er alveg himneskt á bragðið en það verður nú að viðurkennast að súkkulaðihúðunin er heldur tímafrek og dálítið maus. Svo hef ég líka sleppt öllu súkkulaði og velt gumskúlunum beint upp úr kókos. Það er líka algjör snilld og miklu fljótlegra. Ég henti einu sinni í svoleiðis kókoskúlur á hálftíma fyrir kaffiboð með vinkonunum og þær vöktu mikla lukku þar. Ég veit að appelsínuhýðið kemur alveg eins og skrattinn úr sauðarleggnum þarna en því má alls ekki sleppa. Svo er langbest að geyma kúlurnar í frysti.

Smá afsökunarbeiðni fyrir bloggskort. 
Sorrí.
hldr