miðvikudagur, 23. apríl 2014

Burtu með fordóma

Það var einhvern tímann um daginn sem ég sat og beið eftir strætó við Þjóðminjasafnið. Ásinn var rétt ókominn og ég sat inni í skýlinu og hélt á strætókortinu mínu sem mér þykir alveg sérlega vænt um. Það keypti ég mér sjálf á einhverjar rúmar fjörutíu þúsund krónur sem ég vann mér inn í sumarvinnunni í fyrra. 

Hinum megin í strætóskýlinu stóðu þrjár stúlkur á svipuðum aldri og ég og spjölluðu saman. Eða fjórar, ég man það ekki, en ég man að ein þeirra var með ofsa fallegan bleikan Fjällräven bakpoka á bakinu. Þær voru eitthvað að ræða strætókortin, nemakortin sem mennta- og háskólanemar geta keypt á eitthvað sem einu sinni var spottprís. Nei, djók, þau voru einu sinni ókeypis, já. Þær voru að ræða verðið á þessum kortum og minntust þess þegar kortin voru ódýrari og einu sinni voru þau meira að segja bara ókeypis. Ein stúlknanna minnti vinkonur sínar á að kortin voru ekki ókeypis fyrir alla, sveitarfélögin þurftu að greiða á móti þessu verkefni til að íbúar í námi fengju ókeypis kort. Hún nefndi í kjölfarið að Garðabær hefði til að mynda ekki tímt að taka þátt í þessu svo Garðbæingar hefðu ekki fengið fríu kortin. Þá fóru samræðurnar úr strætókortum og yfir í það að krakkar í Garðabæ eiga líka hvort eð er öll bíl sem mamma og pabbi borga þannig að þau taka ekki strætó og þurfa því ekkert svona strætókort. Þarna sat ég, Garðbæingurinn, með mitt kort og ekki með neinn bíl og íhugaði hvort ég ætti eitthvað að nenna að leiðrétta þær. 

Þegar ég byrjaði í menntaskóla vissi ég ekki hvers lags stimpil Garðabærinn hefði á sér. Í alvöru. Það var ekki fyrr en ég kynnti mig fyrir nýjum skólafélögum og sagðist vera úr Garðabænum að mig fór að gruna eitthvað. Hjá sumum mætti ég viðhorfi sem ég vissi ekki að væri til af því enginn hafði látið mig vita að allir í Garðabæ eru dekurdúllur sem fæddust með silfurskeið í munninum, eiga flugfreyjumömmur, læra viðskiptafræði og lögfræði og eru líka bara almennt með leiðindi.

Alhæfingarnar í síðustu setningu rakst ég á í bloggfærslu eftir fullorðinn mann sem hann pikkaði inn á veraldarvefinn í fyrradag. Mamma mín er ekki flugfreyja, mér dytti ekki í hug að læra viðskiptafræði eða lögfræði, silfurskeiðina hef ég ekki fundið ennþá og ég efast um að einhverjum dytti í hug að kalla mig dekurdúllu. Það getur vel verið að ég sé með leiðindi endrum og eins en þá er það svo sannarlega ekki af þeim sökum að ég á heima í Garðabæ. Að fullorðinn maður geti látið út úr sér svona yfirlýsingar sem eiga við á hálfan annan tug þúsunda fólks get ég bara ekki skilið. Mér dytti ekki einu sinni í hug að lýsa því yfir að allir á Egilsstöðum væru alltaf með hor, þó svo að þar búi nú öllu færra fólk en í Garðabæ.

Mér finnst bara alveg drulluglatað þegar fólk er búið að ákveða að tiltekinn aðili sé svona eða hinsegin vegna þess að hann kemur héðan eða þaðan eða er svona eða hinsegin. Ég veit að þessi maður var ekkert að tala um mig í bloggfærslu sinni en hann talar um hóp sem ég fell undir og því hreyfði þetta við mér. Mér finnst líka alveg út í hött að ég forðast það að fara út úr strætó á Arnarneshæðinni vegna þess að ég vil ekki að farþegarnir máli einhverja mynd af mér í kollinum á sér.

Þetta á alls ekkert bara við um dekurdúllurnar í Garðabænum. Það er ekki í lagi ætla sér að halda því fram að allt rauðhært fólk, allir Bretar, allir sem eru í World Class, allir í Breiðholtinu, allir sem æfa skylmingar, allir í MR, allir á Þjóðhátíð í Eyjum eða allir með eyrnalokka séu svona eða hinsegin. Það er bara ekkert hægt. Þó svo ég þekki einn rauðhærðan gaur með athyglisbrest þá eru ekkert allir rauðhærðir með athyglisbrest. Ég þekki líka MR-ing sem fær aldrei lægri einkunn en 8.0 en svo þekki ég líka MR-ing sem fékk einu sinni einkunnina 2.0. Svo erum ég og systir mín báðar með eyrnalokka en erum samt svo ólíkar að það er ekki hægt. 

Ég þekki líka Garðbæinga sem hafa alltaf átt næga peninga og svo þekki ég aðra Garðbæinga sem hafa aldrei átt nóg.

Ég geri þetta sjálf og ég hef lagt mikla áherslu á það undanfarið að gera þetta ekki. Ég reyni að minna mig á það reglulega að ég get ekki með nokkru móti vitað hvort konan sem sat við hliðina á mér í strætó með gat á buxunum sé flugfreyja, lögfræðingur eða afgreiðsludama í Snælandsvídeó. Ég get ekki vitað hvað hún er að díla við í dag eða hvað hún hefur dílað við á leið sinni í gegnum lífið og tilveruna. Ef systir hennar er í eiturlyfjaneyslu, amma hennar með krabbamein eða foreldrar hennar að skilja er ekkert við sameiginlega strætóferð okkar sem getur gefið mér hugmynd um það nema að hún bókstaflega ákveði að segja mér alla sólarsöguna. Ég get ekki talið mig þekkja hennar aðstæður í lífinu á nokkurn einasta hátt með því einu að sjá henni bregða fyrir í dagsins amstri. 

Þegar maður pælir raunverulega í því þá er þetta alveg óhugnanlega algengt. Bæði hjá mér og þér. Við höfum ákveðna hugmynd um ákveðið fólk sem iðulega eru komnar frá einni manneskju eða fjórum sem leggja línurnar að ákveðinni staðalímynd. Þá finnst okkur eðlilegt að allir sem séu eins og þessir aðilar á einhvern hátt hljóti að hafa sömu persónueinkenni og reynslu. 

Ég held að það sé gríðarlega óheilbrigt að vera fordómafullur, að ákveða fyrirfram hvaða persónu fólk hefur að geyma. Ég held að með fordómum missi maður af svo mörgum áhugaverðum einstaklingum, aðstæðum og tækifærum. Ég efast ekki um að ég hafi misst af því að upplifa eitthvað merkilegt vegna þess að fordómar mínir stóðu í vegi fyrir því. Þess vegna vil ég leggja mig alla fram í að verða fordómalaus. Með því mun mér og eflaust einhverjum öðrum líða betur og ég mun alveg klárlega ekki tapa neinu á því, ég mun eflaust bara græða. 


Burtu með fordóma og annan eins ósóma.

hldr

þriðjudagur, 15. apríl 2014

Múslí

Í dag hafði ég lítið fyrir stafni. Ég ákvað að prófa að búa mér til múslí. Ég gúgglaði mig til og skoðaði nokkrar mismunandi uppskriftir af múslíum (?) og sá að flest innihéldu hafra, einhverja blöndu af hnetum og fræjum og eitthvað af þurrkuðum ávöxtum. Ég ákvað að búa til mitt eigið úr því sem væri til heima. Ég ákvað líka að sleppa þurrkuðu ávöxtunum, mér finnst betra að geta valið hverju sinni hvort mig langar í rúsínur, apríkósur eða gojiber.

Ég er íslenskunörd og þurfti að sjálfsögðu að kanna hvernig múslí væri í fleirtölu á íslensku af því ég notaði orðið sem hvorugkynsorð í þágufalli fleirtölu hér að ofan. Samkvæmt BÍN er múslí ekki til í fleirtölu. Ég er ósammála því, það er hiklaust hægt að nota þetta orð í fleirtölu, það eru til svo margar gerðir af múslíum!

    nf.    múslí
    þf.    múslí
    þgf.  múslíum
    ef.    múslía

En ég gerði líka bara eitt múslí, svo þetta skiptir ekki höfuðmáli. Útkoman varð bara prýðileg, kannski svolítið mikið bökuð en fín samt. Innihaldið var nokkurn veginn svona:




haframjöl
-  1 bolli

fínt kókosmjöl
saxaðar möndlur
saxaðar pekanhnetur
sólblómafræ
graskersfræ
saxaðar kókosflögur 
-  1 bolli

hunang
kókosolía
hnetusmjör
agavesíróp
-  tæplega 1/2 bolli

kanill
-  1-2 tsk


Hneturnar, fræin og kókosið (kókosinn?) voru um það bil í svipuðu magni, ég blandaði þessu bara út í bolla svo þetta fyllti upp í. Blautefnin voru svo tæplega hálfur bolli. Þessu blandaði ég síðan öllu saman í skál og hrærði vel í. Ég hitaði ofninn í 175° og dreifði úr blöndunni á plötu með bökunarpappír. Þessu henti ég inn, stillti klukku á 40 mínútur og tíu mínútum síðar hrærði ég aðeins í þessu til að þetta myndi nú bakast jafnt. Fimm mínútum síðar var þetta orðið ansi dökkt á lit, ég opnaði ofninn og þá rauk bara úr honum. Þetta leist mér ekki á svo ég tók plötuna úr ofninum og lækkaði hitann í 150°. Þegar hann hafði kólnað aðeins setti ég draslið aftur inn og þorði síðan ekki annað en að fylgjast með þessu svo ég færi ekki að kveikja í. Ég hélt áfram að hræra reglulega og missti svo þolinmæðina rétt áður en mínúturnar 40 kláruðust. Ég leyfði þessu svo að kólna og kom þessu svo fyrir í fallegri krukku, því allt er jú betra í krukku. 



Ég BÍN-aði líka kókos og komst að því að það má bæði vera í karlkyni og hvorugkyni. Það er líka bara til í eintölu, ég get alveg sætt mig við það. Hvorugkyns kókos og karlkyns kókos beygist eins í eintölu, munurinn kemur bara fram þegar greininum er bætt við, kókosið - kókosinn. 

Ég hef nánast jafn gaman af þessu og múslíinu sjálfu.


En burtséð frá þessum beygingum á ég nú þetta fína múslí! Næst held ég að ég setji minni kanil og passi mig kannski að hræra oftar í blöndunni svo hún bakist ekki svona mikið. Kannski ég hafi bara ofninn á 150° - þá get ég kannski andað rólega á meðan múslíið er í ofninum. En hey, úr því ég gat þetta þá geta þetta allir, prófið!

hldr