þriðjudagur, 29. október 2013

4/5 - 16 stig

Fjórða vikan er búin, nú er bara ein eftir sem er samt eiginlega bara hálf. Bæði er hún styttri en hinar og svo eru líka búnir tveir dagar.
Síðasta vika var ekki beint til fyrirmyndar í bloggmálum en hún var ágæt í flestu öðru. Ég var á kafi í hljóðfræðilærdómi og þess á milli nýtti ég tímann í ræktinni, sundi eða afslöppun.
  1. VAKNA/SOFNA:   Þetta fór svolítið 50/50  - 1 stig
  2. HREYFING:  Þetta virðist sjaldan klikka hjá mér  - 2 stig
  3. MATARÆÐI:  Virku dagarnir voru góðir en helgin hefði mátt ganga betur - 1 stig
  4. VATN:   Ég var dugleg að þamba vatn yfir lærdómnum - 2 stig
  5. SKÓLI:   Einkenndist svolítið af undirbúningi fyrir prófið en gekk þó vel - 2 stig
  6. FÖT/SKART/SNYRTIDÓT:   Já já já - 2 stig
  7. NAGLALAKK:   Ég smellti á mig dökkrauðu um helgina - 2 stig
  8. SKIPULAG:   Vikan var vandlega kortlögð til að ekkert gleymdist - 2 stig
  9. ÖÐRUVÍSI:   Ég lærði á Þjóðarbókhlöðunni á fimmtudaginn, það hef ég aldrei gert - 2 stig
  10. BLOGG:   Ekkert - 0 stig
 Samtals: 16 STIG

Planið um 20 stig gekk ekki alveg eftir en ég er sátt. Ég sé enga ástæðu til að vera óánægð með þetta.

Mér hefur gengið hvað verst með níunda markmiðið. Ég hef ekki verið nægilega meðvituð um að breyta út af vananum en ákvað ég mætti nú alveg fá stig í þetta skiptið. Þetta er engin meiriháttar tilbreyting en samt eitthvað sem ég hef ekki gert og af einhverjum ástæðum ekki viljað gera. Ég komst að því að það er ekkert svo galið að læra á Bókhlöðunni, sérstaklega ef maður ætlar að einbeita sér að lestri og vera laus við truflun. Ég mun sennilega láta sjá mig þarna oftar.




Bloggi skal fylgja mynd. Ég var þokkalega dugleg að gera mér nesti í síðustu viku og var meðal annars alltaf með svona á mér. Þetta er lítið box á stærð við lófann minn sem ég fyllti af kókosflögum, möndlum, pekanhnetum, þurrkuðum trönuberjum og döðlum. Ég hélt fyrst að þetta box væri allt of lítið en svo er það bara afskaplega passlegt fyrir daglegan skammt af gúmmulaði sem er ekki meinóhollt. Þetta box kom sér vel þegar ég fékk þörf fyrir eitthvað sætt eða einfaldlega eitthvað að narta í en ég þurfti passa að það entist allan daginn. 
Hnetur og þurrkaðir ávextir eru vissulega uppfull af hitaeiningum og eru góð í hófi eins og allt annað. Einu sinni las ég að í einum litlum poka af möndlum (100g held ég) eru um 500 hitaeiningar svo það er eins gott að gæta hófs í þessum efnum. Pekanhnetur eru held ég enn ríkari af hitaeiningum og trönuberin aðeins sykruð. Svo eru döðlurnar stórhættulegar, svo góðar en ansi dýrar fyrir hitaeiningakvóta dagsins. Þarna þarf því að passa sig vel og því hentaði mér prýðilega að hafa svona mátulega lítið box af sælgæti með mér inn í daginn. 


Ég fékk skilaboð í gegn um Facebook í byrjun síðustu viku frá stelpu sem ég hef ekki verið í miklu sambandi við undanfarin ár. Hún sagðist hafa fylgst með blogginu mínu og vildi láta mig vita af því að hún hefði fulla trú á mér og óskaði mér góðs gengis í stigasöfnuninni. Þessi skilaboð glöddu mig mikið og komu mér á óvart, ég á svolítið erfitt með að gera mér grein fyrir því að ólíklegasta fólk getur lesið þetta hjá mér. Mér finnst samt afskaplega gaman að heyra svona hluti og ég hef fengið ýmis hrós í tengslum við bloggið mitt. Ég hef agalega gaman af þessu og ætla hiklaust að halda áfram þó svo að meistaramánuður klárist á fimmtudaginn.


Takk fyrir að lesa.
hldr

mánudagur, 21. október 2013

3/5 - 16 stig

Lítið um blogg þessa dagana hjá mér. Helgin var uppfull af allskonar og innihélt meðal annars vedískulærdóm, vísindaferð í Morgunblaðið, Stúdentablaðssamkvæmi, vinnu og kósíkvöld með vinkonum. Á morgun tekur við ný skólavika með verkefnaskilum og öðru lokaprófi, nú í hljóðfræði. Svo fæ ég Jóhann minn heim frá Noregi sem verður aldeilis ljúft. Nú reynir á markmið númer átta að tvinna saman prófalærdóm, verkefnavinnu, undirbúning fyrir kennslustundir, hreyfingu og jafnvel smá frítíma. Það verður bara áskorun!

Ég ætla í fyrsta skipti að standa við það sem ég sagði í upphafi og taka saman stigin á sunnudagskvöldi (en ekki mánudegi eða þriðjudegi eins og síðustu tvær vikur). Mér fannst þessi vika bara ganga vel, að vísu gengur mér alveg skelfilega að vinna í níunda markmiðinu, mér til mikils ama. Hugmyndir vel þegnar!
Jæja, svona lítur þetta út:

  1. VAKNA/SOFNA:   Já já já, þetta var í góðum málum  - 2 stig
  2. HREYFING:   Fullt hús og ein aukahreyfing í skaðabætur fyrir síðustu viku - 2 stig
  3. MATARÆÐI:   Gekk betur en í síðustu viku en borðaði ekki nógu fjölbreytt um helgina - 1 stig
  4. VATN:   Þetta er allt að koma en gengur misvel eftir dögum, gekk þó ansi vel þessa vikuna - 2 stig
  5. SKÓLI:   Ég má til með að gefa mér tvö stig fyrir allan gotneskulærdóminn, tíu tölvublaðsíður af glósum meðal annars - 2 stig
  6. FÖT/SKART/SNYRTIDÓT:   Gekk prýðilega bara, eins og venjulega - 2 stig
  7. NAGLALAKK:   Ég rétt slapp og henti á mig grábrúnu lakki áðan - 2 stig
  8. SKIPULAG:   Tók dagbókina á nýtt level og skipulagði lærdóminn eftir klukkustundum sem reyndist ansi vel, mun hiklaust halda því áfram - 2 stig
  9. ÖÐRUVÍSI:   Æ nei nei nei - 0 stig
  10. BLOGG:   Ég fæ prik fyrir að henda í eitt blogg - 1 stig 
 Samtals: 16 STIG
Ágætt, ég bætti mig um tvö frá því síðast. Í næstu viku ætla ég að rífa upp markmið númer 3 og vonandi 9 og 10 líka. Það væri geggjað töff að fá 20 stig í næstu viku, best að stefna bara á það!


Og af því mér finnst blogg þurfa að innihalda að minnsta kosti eina mynd þá fær þessi skemmtilega mynd að fylgja með. Hún var tekin í haustferð Mímis síðustu helgi og gaf stig í ratleik. Þar átti að mynda stafi og svo orð með fólki, þetta orð varð fyrir valinu en bakgrunnurinn var fyrir algjöra tilviljun og uppgötvaðist ekki fyrr en eftir á. Útkoman varð því enn betri mynd. Góðar stundir.


hldr

fimmtudagur, 17. október 2013

Gærdagsgeðveiki

Já, geðveiki er sjúkdómur, ég veit. En ég jaðraði alveg við að bilast í gær og enn fremur í dag. Ástæðan var ósköp eðlileg, lokapróf í gotnesku. Það besta við það er að því er nú lokið og þar af leiðandi ætti gotneska ekki að vera aftur á dagskrá hjá mér í bráð - jibbí kóla!

Ég byrjaði gærdaginn í Garðabæjarlauginni þar sem ég tók annan kílómeter, húrra fyrir mér. Að lokinni sundferð hélt ég heim til að læra en henti í þetta magnaða boozt áður en ég fór að lesa.
Ég held að ég hafi toppað sjálfa mig í boozt-gerð með þessu hérna. Ó, namm hvað þetta var gott. Innihaldið var eitthvað á þessa leið:
          - 1 bolli hindber 
          - 2 agnarsmáar perur
          - Handfylli af vínberjum
          - 1/2 mangó og ástaraldin skyrdrykkur
          - 6 myntulauf
          - 1 bolli vatn og smá klaki
Já og svo henti ég smá kókosflögum út á svona upp á punt. Það er alveg klikkað að setja myntu út í svona boozt, hún gefur agalega ferskt og gott bragð. Annars finnst mér þetta orð, boozt, svolítið glatað. Ég heyrði einhverntímann íslenska nýyrðið hyllingur yfir svona drykki, af því þeir væru svo hollir. Ég held nú að það hljóti að vera hægt að búa til orð sem er aðeins meira sjarmerandi yfir þetta, hyllingur hljómar bara eins og eitthvað hættulegt. Jájá.

Kvöldið áður var einhver fótboltaleikur í gangi og því var snædd pítsa hér á bæ. Þá hristi markmið númer þrjú aldeilis hausinn og minnti á stigin núll sem það skoraði í síðustu viku. Úr varð að ég gerði mér salat úr tómötum, gúrku, fetaosti og furuhnetum og steikti brokkolí. Einu sinni fannst mér brokkolí viðbjóður en ég held að ég geti sagt að það er eitt af uppáhöldunum þessa dagana. Í gær ákvað ég að endurtaka leikinn og fékk mér brokkolí í hádegismat, ásamt tveimur flatkökum með kotasælu og papriku. Hrikalega gott og gladdi þriðja markmiðið gríðarlega.
Hádegismatur til vinstri og lærdómur og rófa í skál til hægri. Rófa er nefnilega alveg dýrindis matur, rétt eins og brokkolíið. 
Hildur matargikkur er í útrýmingarhættu.

Jæja, nóg komið af matarmyndum og vitleysu. Best að fara að læra fyrir næsta lokapróf sem er eftir viku.

hldr

þriðjudagur, 15. október 2013

2/5 - 14 stig

Æjæjæj, mér hefur aldeilis ekki gengið vel að blogga síðustu vikuna. Vikan var uppfull af skilaverkefnum, leikhúsferð, vísindaferð og haustferð stúdenta í íslenskum fræðum. Við þetta bættist síðan ferð á Bergþórshvol með tilheyrandi huggulegheitum.
Mér gekk ekkert sérlega vel að sinna markmiðunum mínum. En ég ætla samt að tína saman stigin mín, ég hef ennþá þrjár vikur til að bæta mig!
  1. VAKNA/SOFNA:   Þetta var svolítið svipað og síðast, gekk betur að vakna en að fara að sofa á réttum tíma  - 1 stig
  2. HREYFING:   Ég uppfyllti hreyfinguna fyrir virku dagana en gerði ekkert um helgina, ætla samt að gefa mér tvö stig af því ég synti kílómeter sem ég hef aldrei gert áður, stefni svo á að hreyfa mig aukalega í þessari viku í staðinn - 2 stig
  3. MATARÆÐI:   Þetta gekk ekki nógu vel - 0 stig
  4. VATN:   Ég bætti mig aðeins í að drekka vatn, má samt vera duglegri - 1 stig
  5. SKÓLI:   Hefði mátt vera duglegri en var talsvert skipulagðari með verkefnavinnu - 1 stig
  6. FÖT/SKART/SNYRTIDÓT:   Þetta gengur afskaplega vel, eiginlega best af öllum markmiðunum - 2 stig
  7. NAGLALAKK:   Fagurbleikt varð fyrir valinu í tilefni bleika dagsins síðasta föstudag - 2 stig
  8. SKIPULAG:   Jú, hér var ég bara þokkaleg - 2 stig
  9. ÖÐRUVÍSI:   Ég byrjaði aðeins að prjóna aftur, trefil sem hefur verið lengi í bígerð. Komst að því að það er bara ansi róandi og mun sennilega gera meira af því - 2 stig
  10. BLOGG:   Ekki nógu gott en fæ stig fyrir langt hrökkbrauðsblogg - 1 stig 
 Samtals: 14 STIG


Ókei, þetta var kannski ekki eins slæmt og ég bjóst við. Kannski var ég bara ekki alveg eins meðvituð um þetta og í fyrstu vikunni, sem er ekkert slæmt svo sem. Ef ég er farin að gera þetta ósjálfrátt þá er nú takmarkið í augsýn.

Eins og ég tek fram þarna þá gengur mér allra best að sinna markmiði númer sex. Þegar ég hef mig til fyrir daginn þá er fyrsta hugsunin alltaf að finna flík eða skart sem ég hef ekki notað lengi. Ég hélt að þetta yrði agalega erfitt og ómögulegt en þetta er hrikalega skemmtilegt og sniðugt.


Þessu klæddist ég í síðustu viku. Ég hafði aldrei notað þessa skyrtu áður en hún var keypt í London sumarið 2012. Hún er afskaplega falleg á litinn en er ermalaus og mér fannst það alltaf svo ómögulegt eitthvað. Þennan morguninn var ég næstum farin í eitthvað ofnotað og ómerkilegt en þá datt mér þessi samsetning í hug og var agalega ánægð með hana. Ég mun alveg áreiðanlega nota þessa fínu skyrtu fljótlega aftur!

Svo var ég í þessu í dag. Þetta er ósköp ómerkileg mynd en hún er afar nauðsynleg vegna þess að þessar stuttbuxur hafa legið allt of lengi óhreyfðar inni í skáp hjá mér. Ég keypti þær í París árið 2009, notaði þær einu sinni í þeirri ferð og einu sinni á Möltu í fyrra. Nú hef ég hins vegar notað þær tvisvar á tveimur vikum sem mér finnst hrikalegt afrek. Bæði þessi samsetning og sú sem er á fyrri myndinni eru alveg með ólíkindum litríkar fyrir minn dökka og svarta smekk. Aðallega svarta. Ég á það allt of mikið til að fara út í öllu svörtu og er því að reyna að breyta til í þeim efnum líka. Ég held að ég sé á réttri leið.


hldr


miðvikudagur, 9. október 2013

Skotheld hrökkbrauðsuppskrift

Ég er alls engin eldhússtjarna. Ég hef þó skánað í þeim efnum, fyrir um þremur árum kunni ég ekkert að elda nema piparostapasta.

Eitt get ég þó gert og það hefur alltaf tekist vel (ókei, nema einu sinni) - hrökkbrauð

Hrökkbrauðið hrjúfa
1 dl sólblómafræ
1 dl graskersfræ
1 dl hörfræ
1 dl sesamfræ
1 dl gróft haframjöl
3½ dl spelthveiti
1¼ dl olía
2 dl vatn
2 tsk. salt

"Blandið öllu saman í skál og hrærið þar til deigið er vel blandað (linur massi). Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og helminginn af deiginu á pappírinn, setjið bökunarpappír yfir deigið og fletjið út með kökukeflinu. Helmingurinn af deiginu passar á u.þ.b. eina bökunarplötu. Gerið það sama við hinn helminginn af deiginu. Skerið deigið í þá stærð sem þið viljið hafa kökurnar í áður en bakað er.

Bakist í 10-15 mín við 200 gráður eða þar til hrökkbrauðið er stökkt. Geymið hrökkbrauðið í loftþéttu boxi til að það verði ekki seigt. Það er gott að bæta kúmeni í fræblönduna."




Ætli það séu ekki um tvö ár síðan ég rakst á þessa uppskrift í einhverju viðtali við Jónu Hrönn Bolladóttur, prest. Þar dásamaði hún þessa uppskrift svo mikið að ég ákvað að prófa. Ég fór í búð til að kaupa inn í brauðið en nennti ekki og tímdi ekki að kaupa öll þessi fræ þarna svo ég stökk bara á einhverja "fimm korna blöndu" í staðinn. Þá notaði ég bara fjóra desilítra af henni í stað þess að nota fjóra desilítra af fjórum mismunandi frætegundum. Og oj bara hvað hrökkbrauðið var vont. Eða ekki vont, það var frekar bara "ekkert gott" eins og mamma mín og Jóhann minn orðuðu það. Þá ákvað ég að þetta væri ömurleg uppskrift og endurtók ekki leikinn í þónokkurn tíma.

Svo kom sá dagur að ég ákvað að gefa henni annan séns og keypti þá öll fræin í von um að hún yrði skárri. Ég fylgdi uppskriftinni alveg og notaði einhverja fína ólífuolíu í hana. Þá varð hrökkbrauðið miiiiklu betra. Fimm korna blandan var greinilega ekki málið. Síðan þá hef ég gert þetta hrökkbrauð mörgum sinnum og hef því nokkrar athugasemdir til viðbótar við uppskriftina:
  • Ég hef ekki sett kúmen í þetta, mér finnst þetta alveg nógu gott án þess.
  • Það skiptir miklu máli að nota góða olíu í hrökkbrauðið. Ég hef yfirleitt notað þessa frá Sollu sem er á myndinni eða ólífuolíu frá Himneskri hollustu. Það finnst mikill bragðmunur ef maður notar eitthvað drasl eða til dæmis einhverja blöndu af þremur mismunandi olíum (þegar allt er að klárast), ekki gera það.
  • Saltið er líka svolítið mikilvægt, ég hef lent í því að gleyma að setja það í og þá stráði ég bara smá salti yfir þegar ég tók brauðið úr ofninum, það er ekkert verra.
  • Ég þarf oftast að baka þetta lengur en í 15 mínútur en það gæti líka verið af því ofninn á mínu heimili er svolítið leiðinlegur.
  • Ég baka þetta helst ekki lengur en þar til þetta hefur aðeins brúnast á köntunum. Það verður að vísu svolítið seigt en mér finnst það allt í lagi. Ef ég baka lengur þá kemur bara hálfgert brunabragð af hrökkbrauðinu og enginn vill borða það.
  • Ég prófaði núna síðast að skipta út helmingnum af speltinu fyrir hveitiklíð, það var bara fínt. 
  • Það skiptir ekki neinu einasta máli hvort maður notar "gróft haframjöl" eða bara ósköp venjulegt Sol Gryn. 
  • Munið að skera deigið áður en það er bakað. Mér finnst þægilegast að gera það með pítsuskera.
  • Ég mæli síður með að kaupa graskersfræin (þessi stóru grænu) frá Sollu. Ég mæli frekar með að kaupa þessi frá Góðu fæði (þarna vörurnar með græna límmiðanum). Sollufræin verða til dæmis gul þegar þau bakast, sjá mynd, og bara ekki eins bragðgóð finnst mér. Ég kaupi hin næst!
Það tekur ekki nema um 10 mínútur að hræra í deigið, og ef þið eigið hrærivél þá er til dæmis bara hægt að henda öllum hráefnunum í skál og hræra svo allt saman í einu. Þetta hrökkbrauð er agalega gott og mér finnst nánast óþarfi að nota álegg á það, það er langbest eintómt. Mæli með að þið prófið, það er erfitt að klúðra þessu!


hldr

mánudagur, 7. október 2013

1/5 - 13 stig

Jæja, þá er fyrsta vikan af meistaramánuðinum mínum er búin og önnur að hefjast! Ég var búin að ákveða að gefa mér stig fyrir hvert markmið eftir eina viku í senn og hér kemur fyrsta samantektin. Markmiðin og stigakerfið má sjá í heild sinni hér en ég tek bara aðalatriðin úr þeim hér að neðan.
  1. VAKNA/SOFNA:   Ég vaknaði alltaf milli 7 og 9 en átti stundum erfitt með að standa við það að fara að sofa fyrir miðnætti - 1 stig
  2. HREYFING:   Ég fór í sund á þriðjudegi, ræktina á miðvikudegi, sund á föstudegi og ræktina á laugardegi - 2 stig
  3. MATARÆÐI:   Ég stóð mig ágætlega í þessu, borðaði ekkert brauð en hefði mátt borða svolítið hollara og meira af grænmeti og ávöxtum - 1 stig
  4. VATN:   Hér stóð ég mig ekki nógu vel, þarf að bæta mig helling í þessu! - 0 stig
  5. SKÓLI:   Þarf að bæta mig í lestrinum en var mjög dugleg að þýða gotnesku - 1 stig
  6. FÖT/SKART/SNYRTIDÓT:   Ég var voða dugleg að sinna þessu, fór í eitthvað á nánast hverjum degi sem var lítið eða ekkert notað, var mikið með varalit eða augnblýant og skartgripi - 2 stig
  7. NAGLALAKK:   Smellti á mig naglalakki á fimmtudag og föstudag - 2 stig
  8. SKIPULAG:   Þetta gekk vel, fyllti vel út í dagbókina mína og settist líka niður á kvöldin og fór yfir markmiðin sem ég hafði sinnt yfir daginn - 2 stig
  9. ÖÐRUVÍSI:   Æi nei, hér gerði ég ekkert - 0 stig
  10. BLOGG:   Fimm blogg, mér finnst það bara ansi fínt - 2 stig
 Samtals: 13 STIG 


Já, ég er bara sátt við þetta. Þarna voru tvö markmið sem gáfu mér engin stig og ég ætla því að einbeita mér vel að því að vinna í þeim í þessari viku. Svo vil ég auðvitað rífa öll markmiðin upp í tvö stigin!

Batnandi fólki er best að lifa og svona get ég fylgst vel með því hvað ég stend mig vel. Áfram með mig!



Ég læt eina mynd af Eiffel-turninum fylgja af því hann er fallegur og af því mig dreymir um Parísarferð. Þyrfti kannski að læra að segja meira en merci og bonjour til þess að geta spjarað mig betur þar en síðast. Eða bara að fara til Ítalíu, mér finnst skemmtilegra að segja buongiorno. Jæja, bless.


hldr

sunnudagur, 6. október 2013

Lakk, ljúfmeti og latte

Síðustu dagar hafa einkennst af gotneskulærdómi og vinnu. Fæturnir mínir og hausinn eru að senda mér harðorðar skipanir um að snáfa í rúmið undir eins, ég skulda þeim smá svefn. Ég ætla því bara að henda inn nokkrum myndum í þetta skiptið, meira á morgun!


Það var skrítið veður í vikunni, Hallgrímskirkjuturn faldi sig í þokunni á miðvikudagsmorgun.


Hér er naglalakk vikunnar, samblanda af fölbleiku Loréal naglalakki og ljósu úr Urban Outfitters. Einfalt og fínt.


 Mig langaði í eitthvað að narta í yfir lærdómnum á fimmtudagskvöld. Epli og hnetusmjör varð fyrir valinu, klikkar sjaldan. Klikkaði reyndar smá þarna af því eplið var of mjölmikið svo þetta var dálítið þurrt. Pink Lady epli eru langbest í þessa blöndu!


Í gærkvöldi fattaði ég að mig vantaði nesti fyrir vinnudaginn í dag. Ég ákvað að henda í eina hrökkbrauðsuppskrift því hún er bæði einföld og fljótgerð. Nú á ég meira að segja líka nesti fyrir morgundaginn!


 Ég fer alveg að geta kallað mig kaffibarþjón án þess að líða eins og ég sé að ljúga. Þetta laufblað gerði ég í dag, það er pínu svona "út um allt" en þetta er allt að koma! Mikið er ég ánægð með nýju vinnuna mína.


hldr

miðvikudagur, 2. október 2013

Af banönum / bönunum

Mér finnst bananar frábærir. Þeir koma í umbúðum sem gera manni kleift að stinga þeim beint ofan í tösku til að taka með sér hvert sem er. Mitt helsta vandamál varðandi banana er það að í samstarfi við töskurnar mínar er ég algjör bananaböðull. Ég get sumsé varla tekið banana með mér eitt né neitt án þess að hann sé orðinn kraminn og óætur þegar til stendur að borða hann. Oftar en ekki fær bananinn því að fylgja með heim aftur og endar í ruslinu.

EN - nú hef ég fundið lausn á þessu vandamáli. Raunar líka á vandamálinu þegar bananinn er orðinn svo þroskaður að maður hefur ekki minnstu lyst á honum. Ég einfaldlega breyti banananum í smákökur! 

Þessi bananasmákökutilraunastarfsemi mín hefur nú staðið yfir í u.þ.b. ár. Ég sá þessa hugmynd fyrst á Pinterest en málið er að Pinterest lýgur stundum svolítið mikið (bendi á vefsíðuna www.pinterestfail.com máli mínu til stuðnings). Pinterest hélt því fram að það ætti að duga að bæta við sesamfræjum, skera út litlar kökur og bingó - bananakex. Nei, nei, nei, það gekk sko aldeilis ekki. Útkoman varð eitthvað rugl sem á ekki skilið að ég eyði frekari orðum í það.

Nú hef ég prufað mig áfram og fundið leið til að fá algjört gúmmulaði út úr skemmda banananum. Hún er algjört slump en samt frekar áreiðanleg. Ég stappa einn banana í klessu og bæti svo við haframjöli og kókos. Svo bæti ég við aðeins meira haframjöli, ég hef nefnilega komist að því að listin í þessu er að hafa þetta ekki of blautt, því bananinn gufar ekki upp. Þegar ég er komin með þykka stöppu af banana, kókos og haframjöli móta ég litlar kökur á bökunarplötu og baka þar til þær hafa aðeins brúnast á köntunum. 



Svona lítur þetta síðan út eftir baksturinn. Ég hef líka gert þetta með hörfræjum, sem er ekki síðra. Þessar á myndinni poppaði ég hins vegar ærlega upp, ég átti nefnilega bara hálfan banana svo ég bætti við einni skeið af hnetusmjöri, trönuberjum og stráði graskersfræjum ofan á. Já og svo er þetta bara undirskál sem kökurnar eru á, svo þær eru frekar litlar. En þetta var líka bara hálfur banani, það kemur meira úr heilum!

hldr
 

þriðjudagur, 1. október 2013

Dagur 1 - Sundferð, gotneska og rafmagnsleysi

Meistaramánuður er formlega farinn af stað. Nú er fyrsti dagurinn að verða búinn og ég er bara ansi kát. Í dag vann ég að sjö af tíu markmiðum sem mér finnst bara ansi gott.

Ég vaknaði korter í átta og skellti mér í sund. Það var orðið svolítið síðan ég fór í sund til að synda og það var bara ansi hressandi. Þaðan fór ég beint í skólann þar sem ég sat og þýddi jólaguðspjallið á gotnesku í dágóðan tíma og var því heldur betur vel undirbúin fyrir kennslustundina. Ég hugaði vel að því yfir daginn hvað ég lét ofan í mig en það hefði þó mátt innihalda meira af ávöxtum og grænmeti. Svo skrifaði ég upp gróft plan fyrir vikuna í dagbókina mína og nú er ég að blogga. Þar að auki ákvað ég að draga fram skyrtu sem ég hef ekki notað lengi og skella á mig bleikum varalit. Þannig tókst mér að vinna að öllum markmiðunum nema númer 4 (ég reyndi samt), 7 og 9.

 Skyrta og varalitur, ví!

Svo tókst mér að vísu líka að gera bílinn hans föður míns rafmagnslausan á meðan ég var í skólanum. Ég hef nú nánast ekki gert neinar gloríur með ökutæki heimilisins á þeim fjórum árum sem ég hef keyrt þau svo ég átti alveg inni smá klúður. Ókei nema kannski þegar ég braut gírstöngina á hinum bílnum, en það var honum að kenna, ekki mér. En hey, svona atvik gefa bara lífinu lit.

Mér fannst gaman hvað ég var ánægð í dag yfir því að hafa sett mér öll þessi markmið og naut þess að vinna að þeim öllum í einu. Ég var svo jákvæð og full af metnaði, ég vona að það endist lengur en bara í dag. Ég held að þessi mánuður gæti bara orðið talsvert ánægjulegri en ég þorði að vona!

hldr