mánudagur, 30. september 2013

Meistaramánuður



Mér hefur alltaf líkað fremur illa við að setja mér markmið. Það er aðallega vegna þess að ég er svo hrædd um að ná þeim ekki og að verða sjúklega óánægð með mig í kjölfarið. Þess vegna er ég að ögra mér alveg bilaðslega mikið núna.

Ég ætla að taka þátt í meistaramánuði. Ég er búin að setja mér tíu markmið sem ég ætla að vinna að í mánuðinum. Þau eru nú öll frekar smávægileg og taka flest lítinn tíma. Þetta eru allt hlutir sem mig hefur langað að vinna í lengi svo ég ræðst bara í þetta allt saman, er ekki meistaramánuður annars til þess?

Ekki nóg með það, heldur ætla ég á hverjum sunnudegi (sem er síðasti dagur vikunnar að mínu mati, sama hvað kvæðið segir) að gefa mér stig fyrir frammistöðu mína í vikunni. Ef ég hef staðið mig vel í að vinna að ákveðnu markmiði þá fæ ég 2 stig, annars get ég líka fengið 1 stig eða engin, ef ég hef ekki verið dugleg. Fyrir hverja viku fæ ég þá mest 20 stig. Mánuðurinn er nokkurn veginn fimm vikur svo ég get mest fengið 100 stig fyrir hann.

Svona lítur þetta altso út:
  1. Ég ætla að vakna á milli klukkan 7:00 og 9:00 á morgnana og fara að sofa fyrir klukkan 24:00.
  2. Ég ætla að hreyfa mig að minnsta kosti 3x á virkum dögum og 1x um helgar.
  3. Ég ætla að borða hollan og fjölbreyttan mat. Ég ætla að leggja áherslu á að borða brauð aðeins 1x í viku (max. 2 sneiðar) og að borða vel af ávöxtum og grænmeti á hverjum degi. 
  4. Ég ætla að drekka meira vatn, helst um tvo lítra á dag.
  5. Ég ætla að mæta undirbúin í allar kennslustundir í skólanum. Ég ætla að lesa heima þegar það á við, prenta út glósur og skjöl og þýða texta fyrir tímana.
  6. Ég ætla að nota fötin mín, snyrtivörur og skartgripi. Ég er mikið í því að grípa alltaf sömu eyrnalokkana eða peysurnar en nú verður breyting þar á.
  7. Ég ætla að naglalakka mig 1x í viku. Ég veit að þetta er gagnslaust en ég á öfga mikið af naglalökkum og þarf að vera duglegri að nota þau. Í leiðinni er þetta hvatning fyrir mig að setjast niður og slaka aðeins á vikulega.
  8. Ég ætla að skipuleggja mig vel með því að nota dagbókina mína meira. Þannig kem ég vonandi til með að nýta daginn betur.
  9. Ég ætla að gera eitthvað eitt öðruvísi í hverri viku. Það getur verið hvað sem er, bara að gera eitthvað til að bregða út af vananum.
  10. Ég ætla að blogga. 

Þetta verður aldeilis spennandi.

hldr
 

Blogg

Mér finnst blogg ótrúlega sniðug.
 
Á bloggsíðum deilir fólk hugmyndum sínum og hugsunum fyrir öðrum. Mér finnst ægilega skemmtilegt að skoða blogg hjá öðrum til að fá hugmyndir og sjá hugsjón annarra. Ég veit eiginlega ekki hvað ég gerði í tölvunni minni áður en ég fór að skoða blogg.  
 
Það er agalega langt síðan ég stofnaði þessa bloggsíðu. Hins vegar hef ég ekkert skrifað á hana af því ég vissi bara ekkert hvað ég ætti að skrifa. Eftir nánari umhugsun hef ég ákveðið að byrja bara að skrifa og sjá hvert það leiðir mig. Mér finnst nefnilega ansi skemmtilegt að skrifa og hér hef ég örlítinn vettvang til þess.

Nú er hinn alræmdi Meistaramánuður að hefjast. Í fyrra gaf ég allrækilega skít í þennan meistarmánuð, mér fannst hann asnalegur og tók ekki þátt á nokkurn einasta hátt. Mamma sagði mér um daginn að í meistaramánuði ætti maður að vera "besta útgáfan af sjálfum sér." Mér fannst það agalega væmið þá en ég er eiginlega komin á þá skoðun að það sé hreint ekki svo galið að taka sig aðeins saman í andlitinu og vera ögn betri útgáfa af mér. Ég er að leggja lokahönd á markmiðalista sem ég ætla að henda hingað inn þegar hann er tilbúinn. 
 
Hér mun ég sumsé byrja á að fylgja eftir framvindu þessa meistaramánaðar og vonandi hafa gaman af. Ekki væri verra ef aðrir hefðu gaman af að fylgjast með.


hldr