föstudagur, 6. desember 2013

Ógæfa mín er endalaus

Nei djók. Alls ekki. En það var ansi svart svona síðustu vikuna eða tvær. Og svo er líka gaman að vitna í Lion King. Ég leyfi myndunum að tala.




Svona hefur síðastliðin vika litið út hjá mér. Og rúmlega það. Á miðvikudaginn fór ég í lokapróf í Sanskrít og samanburðarmálfræði. Ég hef heyrt að stelpa sem fór í sama próf kallaði það "próf lífs síns" og ég held að það eigi bara prýðilega við. Ég glósaði svo mikið fyrir þetta próf að ég trúi því ekki. Á efri myndinni er ég í góðu yfirlæti hjá Þorbjörgu vinkonu  minni, með kaffibolla og fyrsta flokks félagsskap yfir nafnorðabeygingu í indóevrópsku. Neðri myndin er tekin í Árnagarði og ef myndin er grandskoðuð þá sést þar hversu mikil steypa þetta fag var og skýrir kannski að ég er guðs lifandi fegin að vera laus við það (vonandi). Víhú!





Ég er ægilega heppin að eiga svona góðan og skemmtilegan kærasta. Ég er líka svo heppin að eiga yndislega tengdaforeldra sem stunda búskap á Bergþórshvoli í Landeyjum. Á efri myndinni er þessi myndarlega kind búin að fella Jóhann minn en planið var öfugt, hann ætlaði að fella hana. Þarna var rúningur í fullum gangi og veðrið úti var svo ósköp fallegt en skelfing var það kalt. Ég alveg barðist við kuldann til að ná neðri myndinni þar sem Eyjafjallajökull sést í fjarska. Það er svo ótrúlega fjölbreytt útsýnið frá Bergþórshvoli og sólin skín oft svo fallega. 



Þetta gerðist um daginn. Ég var búin að safna í þetta fax síðan ég var þrettán ára og nú fékk ég loksins nóg. Nýja hárið er ég ennþá að læra á en það er óskaplega þægilegt að vera laus við þetta allt saman. Svo finnst mér það líka bara talsvert heilbrigðara svona. 

Annars hefur sitthvað á daga mína drifið. Ég lenti í fyrsta árekstrinum mínum sem var nú ekki meira en lítils háttar aftanákeyrsla þökk sé mannvitsbrekkunni sem fór yfir á rauðu ljósi og í veg fyrir mig og bílinn á undan mér. 

Einnig kom það fyrir í fyrsta skipti að ég glataði mikilvægu tölvuskjali. Það var nú reyndar af því að tölvan mín bilaði skyndilega og var send í viðgerð og þurfti ég því að flakka á milli tölva með minniskubb við gerð á fyrirlestri fyrir skólann. Þegar ég var að leggja lokahönd á verkið og ætlaði að prenta það út breyttust blaðsíðurnar þrjár í yfir 60 blaðsíður af ypsilonum (yyyyyyyyyyyyyyyy...) við litla kátínu mína. En með brosi allt kemst í lag svo ég tók þetta á jákvæðninni og henti í nýjan fyrirlestur eftir minni.

Svo var ég nú reyndar líka kýld um daginn, en það var alveg ótrúlega óvart og drepfyndið og kenndi ég mér lítils meins af.

Ég tók stórt skref um daginn þegar áskriftin mín í Dansrækt JSB rann út og keypti mér kort í World Class. Þar kemst ég í ræktina allan sólarhringinn, opna hlið með augunum og er boðin velkomin af rafknúnu hliði. Gífurlega skemmtilegt og spennandi. Annars ætla ég nú að skrifa smá um reynslu mína af JSB hingað inn, geri það í bráð.

hldr