þriðjudagur, 15. apríl 2014

Múslí

Í dag hafði ég lítið fyrir stafni. Ég ákvað að prófa að búa mér til múslí. Ég gúgglaði mig til og skoðaði nokkrar mismunandi uppskriftir af múslíum (?) og sá að flest innihéldu hafra, einhverja blöndu af hnetum og fræjum og eitthvað af þurrkuðum ávöxtum. Ég ákvað að búa til mitt eigið úr því sem væri til heima. Ég ákvað líka að sleppa þurrkuðu ávöxtunum, mér finnst betra að geta valið hverju sinni hvort mig langar í rúsínur, apríkósur eða gojiber.

Ég er íslenskunörd og þurfti að sjálfsögðu að kanna hvernig múslí væri í fleirtölu á íslensku af því ég notaði orðið sem hvorugkynsorð í þágufalli fleirtölu hér að ofan. Samkvæmt BÍN er múslí ekki til í fleirtölu. Ég er ósammála því, það er hiklaust hægt að nota þetta orð í fleirtölu, það eru til svo margar gerðir af múslíum!

    nf.    múslí
    þf.    múslí
    þgf.  múslíum
    ef.    múslía

En ég gerði líka bara eitt múslí, svo þetta skiptir ekki höfuðmáli. Útkoman varð bara prýðileg, kannski svolítið mikið bökuð en fín samt. Innihaldið var nokkurn veginn svona:




haframjöl
-  1 bolli

fínt kókosmjöl
saxaðar möndlur
saxaðar pekanhnetur
sólblómafræ
graskersfræ
saxaðar kókosflögur 
-  1 bolli

hunang
kókosolía
hnetusmjör
agavesíróp
-  tæplega 1/2 bolli

kanill
-  1-2 tsk


Hneturnar, fræin og kókosið (kókosinn?) voru um það bil í svipuðu magni, ég blandaði þessu bara út í bolla svo þetta fyllti upp í. Blautefnin voru svo tæplega hálfur bolli. Þessu blandaði ég síðan öllu saman í skál og hrærði vel í. Ég hitaði ofninn í 175° og dreifði úr blöndunni á plötu með bökunarpappír. Þessu henti ég inn, stillti klukku á 40 mínútur og tíu mínútum síðar hrærði ég aðeins í þessu til að þetta myndi nú bakast jafnt. Fimm mínútum síðar var þetta orðið ansi dökkt á lit, ég opnaði ofninn og þá rauk bara úr honum. Þetta leist mér ekki á svo ég tók plötuna úr ofninum og lækkaði hitann í 150°. Þegar hann hafði kólnað aðeins setti ég draslið aftur inn og þorði síðan ekki annað en að fylgjast með þessu svo ég færi ekki að kveikja í. Ég hélt áfram að hræra reglulega og missti svo þolinmæðina rétt áður en mínúturnar 40 kláruðust. Ég leyfði þessu svo að kólna og kom þessu svo fyrir í fallegri krukku, því allt er jú betra í krukku. 



Ég BÍN-aði líka kókos og komst að því að það má bæði vera í karlkyni og hvorugkyni. Það er líka bara til í eintölu, ég get alveg sætt mig við það. Hvorugkyns kókos og karlkyns kókos beygist eins í eintölu, munurinn kemur bara fram þegar greininum er bætt við, kókosið - kókosinn. 

Ég hef nánast jafn gaman af þessu og múslíinu sjálfu.


En burtséð frá þessum beygingum á ég nú þetta fína múslí! Næst held ég að ég setji minni kanil og passi mig kannski að hræra oftar í blöndunni svo hún bakist ekki svona mikið. Kannski ég hafi bara ofninn á 150° - þá get ég kannski andað rólega á meðan múslíið er í ofninum. En hey, úr því ég gat þetta þá geta þetta allir, prófið!

hldr

1 ummæli:

  1. Mig langar að baka fullt af múslíum og setja kókosið með í blönduna en líka nota kókosinn til þess að strá yfir ásamt rúsínunum!


    :D

    SvaraEyða