föstudagur, 15. nóvember 2013

Ég er bara ég


Ég verð sjaldan veik. Eða ókei, ég kannski bara sætti mig sjaldan við að vera veik. Ég ætlast til þess af líkama mínum að hann virki öllum stundum og get orðið skelfilega svekkt út í hann ef hann þarf hvíld eða pásu frá dagskránni minni. Ég hef sárasjaldan hringt mig inn veika í vinnunni til dæmis en talsvert oftar staðið vaktirnar mínar raddlaus eða tognuð á hendi eða fæti. Mér dettur ekki í hug að sleppa því að mæta í skólann þó að ég sé sárlasin. Ég mætti í einn tíma í haust þar sem ég var alveg í klessu af hálsbólgu og kvefi, mér fannst bara svo mikil synd að sleppa honum úr því þetta var ekki nema einn tími. Eðlilegt fólk hefði sennilega hugsað þetta öfugt, að það væri nú meira en sjálfsagt að sleppa skólanum þennan daginn, úr því þetta væri bara einn tími. En ekki ég, nei nei.

Ég er líka haldin eins konar skrópfóbíu. Ég sleppi bara ekki tímunum mínum, ég meika það ekki. Það er ekki það að ég hafi svona sjúklega gaman af þeim öllum, alls ekki. Ef ég sleppi tíma þá eyði ég deginum í að velta fyrir mér hverju ég gæti hafa misst af. Á fyrsta árinu mínu í HÍ sleppti ég tveimur tímum, minnir mig. Einu sinni þurfti ég að fara til læknis (þetta var eini lausi tíminn hjá lækninum, ég lét auðvitað athuga það) og í hitt skiptið var snjóstormur og lögreglan skipaði fólki að halda sig heima. Ég var samt ekki langt frá því að halda af stað út í bylinn en þegar faðir minn, hjálparsveitarmaðurinn, sagði mér frá öllum bílunum sem væru fastir út um allt ákvað ég að vera heima. Það var samt ekki vegna þess að ég var hrædd um að festast á Nissan X-trailnum, heldur af því að mig grunaði að það væri einhver annar á smábíl sem væri fastur og þar af leiðandi fyrir mér svo ég kæmist ekki mína leið í skólann.

Ég glími við alvarlegan prófkvíða. Held ég. Jú, ég geri það. Prófkvíðinn er yfirleitt í dvala og lætur ekki á sér kræla fyrr en kvöldið fyrir próf. Þá fær allt að flakka og því miður er það oftast elsku Jóhann minn sem verður fyrir barðinu á því. Hann hefur lært af reynslunni og er farinn að bregðast mjög skilvirkt við þessum köstum mínum og minna mig á öll hin (ekki)skiptin þar sem ég „vissi ekki neitt“ eða „féll“ á prófunum. Ég reyni sífellt að halda því fram að í þetta skiptið sé þetta öðruvísi og nú muni ég sko falla. Það hefur ekki gerst ennþá. Ég mun samt áreiðanlega halda því aftur fram í desember, úff.

Ég er alltaf í svörtu. Kannski ekki öllu svörtu en það líður aldrei nokkurn tímann sá dagur þar sem ég klæðist engri svartri flík. Þegar ég sé fallega flík eða hlut í lit kemur oftar en ekki einhver svartur skynsemispúki upp í hausinn minn og segir mér að kaupa hlutinn frekar í svörtu, það sé skynsamlegra. Jóhann spurði mig um daginn hvað ég myndi gera ef allar svörtu flíkurnar myndu hverfa úr skápnum mínum. Ég varð bara stressuð við tilhugsunina. Einu sinni ætlaði ég á árshátíð og var ekki viss hvort græni eða bleiki kjóllinn yrði fyrir valinu. Ég nefndi það við vinkonu mína og sagði henni að það væri gríðarlega líklegt að ég myndi enda á svörtum kjól, þrátt fyrir að það væri ekkert að hinum tveimur. Og viti menn, ég fór á árshátíðina í öllu svörtu og með eitthvað blátt hálsmen til að reyna að fela veikleika minn. Það gekk ekki. Allir skórnir mínir eru líka svartir. Nema rauðir hælaskór sem ég hef bara notað einu sinni, af því þeir eru ekki svartir. Jesús minn.

Regrets are made for losing, embrace your imperfections.
Það segir Svavar Knútur.

hldr

mánudagur, 11. nóvember 2013

Ljúfir tónar

Ég hlusta ekkert gríðarlega mikið á tónlist. Ég gerði það einu sinni, þá átti ég iPod sem stóð með mér og gerði það sem ég vildi. Svo datt ég í læk og iPodinn eyðilagðist svo ég fékk mér nýjan undir eins til að geta haldið áfram að hlusta á tónlistina mína. Sá nýi olli mér hins vegar agalegum vonbrigðum, kveikti  sjálfur á sér þegar honum hentaði og var því alltaf batteríslaus. 

Þetta varð til þess að ég fór að nota iPodinn lítið sem ekkert og tók geislaspilarann minn aftur í notkun. Þá brenndi ég mig náttúrulega á því að ég átti ekkert nema Pottþétt diska sem ég var lítið spennt fyrir að hlusta á. Ég hef því undanfarið beðið um geisladiska í jóla- og afmælisgjafir og keypt mér þá sem ég hef ekki getað beðið eftir. Mér finnst líka miklu skemmtilegra að eiga geisladisk í hulstri og jafnvel með textum heldur en að eiga bara lög í tölvunni. 

Þegar við Jóhann byrjuðum saman (í þetta skiptið) kynnti hann mig fyrir tónlistarmanninum Svavari Knúti. Saman höfum við grúskað svolítið í tónlistinni hans og fylgst með honum síðastliðin fjögur ár. Hann er aðallega trúbador sem kemur ýmist fram einn eða með öðrum. Ég á plötu með honum og söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur sem ég held mikið upp á.

Platan heitir Glæður og á henni eru tíu lög sem eru ýmist cover-lög eða samin af Svavari eða Kristjönu. Ég fæ hreinlega ekki leið á þessari plötu og hlusta stundum á hana nokkrum sinnum í röð ef ég nenni ekki að skipta um disk í tækinu.

Mér fannst kominn tími á að blogga um eitthvað annað en markmið og meistaramánuð og þetta er ljúf plata sem mér finnst að fleiri mættu vita af.

hldr

miðvikudagur, 6. nóvember 2013

75 STIG

Ég er ánægð með mig. 

Ég er aðallega ánægð með að hafa þorað að setja mér markmið. Ekki bara eitt, heldur tíu. Ég horfðist í augu við þau öll og sinnti þeim öllum á einhvern hátt. Ég vann mér inn 75 stig af 100 mögulegum og mér finnst það góður árangur. 

Markmiðin mín voru kannski ekki alveg þess eðlis að hægt væri að "ná" þeim. Ég get því ekki beint sagt að ég hafi náð öllum markmiðunum mínum en ég notaði þau til að vera betri útgáfa af sjálfri mér. Með því að hafa þau sýnileg og minna mig á þau þá hafði ég ekki afsökun til að sleppa þeim eða gleyma. Einnig hefur það hjálpað mér að setja þau fram á þennan máta, að blogga um þau. Þá er fólkið í kring um mig líka meðvitað um hvað ég ætla mér og passar þannig upp á að ég haldi mig við efnið. 

Ég er líka ánægð með að hafa haldið mér frá neikvæðniköstum þegar mér gekk illa. Ég hef einu sinni áður sett mér markmið á ævinni, markmið sem hægt var að ná. Það munaði svo agnarlitlu að ég næði því og varð í kjölfarið gríðarlega óánægð með sjálfa mig. Góð vinkona benti mér á að ég mætti ekki gleyma því að vera ánægð með það sem ég hafði áorkað, þrátt fyrir að ég hafi ekki náð nákvæmlega því takmarki sem ég setti mér í upphafi. Í þessum mánuði hef ég lagt mig fram við að vera ánægð með það sem ég geri vel og gera mér grein fyrir mistökunum en sleppa því að velta mér upp úr þeim. Með það að leiðarljósi líður mér svo miklu betur og hef meiri þrótt til að halda áfram.


Talandi um að halda áfram, þá er ég alls ekki hætt að vinna í markmiðunum mínum. Þau standa ennþá en ég ætla að reyna kannski fremur að einblína á færri í einu og sinna þeim þá enn betur. Núna fram að jólum ætla ég að halda áfram að hreyfa mig reglulega og gera meiri kröfur til mín á því sviði. Ég ætla að leggja mikla áherslu á mataræðið og vona að það skili sér jafnvel í ögn víðari flíkum um jólin. Ég ætla að drekka minnst tvo lítra af vatni á dag og helst meira. Svo verður blessaður skólinn víst að fylgja með þar sem næstu vikur eru troðfullar af verkefnaskilum og tvö lokapróf ljúka svo misserinu í desemberbyrjun. Úff.

Það þýðir ekkert minna en að takast á við þetta með jákvæðnina að vopni. Líkt og segir í ágætum skátasöng: "Brosum, þá er sigur vís."

hldr

mánudagur, 4. nóvember 2013

5/5 - 16 stig

Meistaramánuður er búinn. Ég geri mér grein fyrir því að það eru nokkrir dagar síðan hann kláraðist en dagskráin hefur verið ansi þétt hjá mér þessa fyrstu daga í nóvember. Hér er síðasta samantektin. Hún verður bara stutt í þetta skiptið og svo ætla ég að fara yfir mánuðinn í heild sinni á morgun.
  1. VAKNA/SOFNA:   2 stig
  2. HREYFING:   2 stig
  3. MATARÆÐI:   2 stig
  4. VATN:   2 stig
  5. SKÓLI:   2 stig
  6. FÖT/SKART/SNYRTIDÓT:   2 stig
  7. NAGLALAKK:   0 stig
  8. SKIPULAG:   2 stig
  9. ÖÐRUVÍSI:   2 stig
  10. BLOGG:   0 stig
 Samtals: 16 STIG

Hér er svo mynd af John Lennon úr kaffi af því ég seldi bilað mikið kaffi um helgina, þökk sé Airwaves. 

hldr