laugardagur, 8. febrúar 2014

Þegar ég breytti um lífsstíl

Nú er ég að komast á gott ról eftir hátíðirnar. Síðustu vikur hef ég hreyft mig reglulega og gætt vel að mataræðinu (ókei, ekki síðustu þrjá daga þar sem ég hef verið lasin). Um leið og ég byrjaði á því þá fann ég hvað líkaminn minn var ánægður. Hann átti svolítið erfitt með þetta fyrst en svo fór hann að njóta, það er dásamlegt að finna fyrir því.

Um jólin sleppti ég mér alveg. Ég var ekki nógu ánægð með mig og átti svolítið erfitt með að fara í ræktina af því ég var byrjuð á nýjum stað sem ég þekkti ekki nógu vel. Fyrir vikið var ég rosalega útblásin og þung á mér yfir hátíðirnar, mér leið bara frekar illa á líkama og sál. 

Fyrir tæpum þremur árum var ég svoleiðis alla daga. Ég hirti lítið um það sem ég lét ofan í mig, fæðan var einhæf og í þokkabót var ég ansi matvönd. Ég var búin að taka mér tíma í að vinna í sjálfri mér andlega og var sátt við þá hlið af mér en var ekki nógu ánægð með líkamlegu hliðina. Ég var nýútskrifuð úr menntaskóla og ákvað að taka mér árspásu frá námi og vinna. Þegar sumrinu var að ljúka ákvað ég að nýta þessa árspásu í að koma lagi á líkamann minn, byrja að hreyfa mig og gjörbreyta mataræðinu. Ég var svo heppin að fá bestu vinkonu mína með mér í lið og saman skráðum við okkur á TT3 námskeið hjá Dansrækt JSB. 

TT námskeiðin í JSB eru gerð fyrir konur sem vilja léttast og breyta um lífsstíl. JSB er einungis líkamsrækt fyrir konur, lítill og þægilegur staður með öllum helstu tækjum og tólum. TT3 er fyrir ungar konur á aldrinum 16-25 ára. Ég hafði áður farið á svona námskeið og vissi því að þetta hentaði mér. Í fyrra skiptið sleppti ég alveg af mér beislinu eftir að námskeiðið kláraði, hætti að hreyfa mig og borðaði það sem ég vildi. Við vinkonurnar ákváðum að þetta námskeið yrði ekki bara tímabundið átak heldur upphaf af nýjum lífsstíl sem við myndum halda áfram þó við hættum á námskeiðinu.

Námskeiðið stóð í sex vikur, við skráðum okkur á tvö námskeið og vorum því fram að jólum að breyta okkur og bæta. Á námskeiðinu eru tveir tímar í viku með hópnum þar sem kennari stýrir eróbikkæfingum og fjölbreyttri styrktar- og brennsluþjálfun. Þarna er gætt sérstaklega vel að því að allir geri allar æfingar rétt til að koma í veg fyrir meiðsli og sjá til þess að æfingin reyni á réttu vöðvana. Hóptímarnir eru hugsaðir sem kennsla, þarna koma stúlkur sem þurfa að læra hvernig á að hreyfa sig og þær fá skýrar leiðbeiningar og kennslu í því hvernig það er gert. Til viðbótar við hóptímana er fundur í hverri viku þar sem fer fram fræðsla og leiðbeiningar um mataræðið og það sem maður gerir utan hóptímanna. Þar fær maður að vita hvað sé best að borða hvenær, fær hugmyndir af máltíðum og einnig eru ýmsar kenningar og mýtur um hreyfingu og mataræði raktar og kannað hvort þær eigi við rök að styðjast. Þessu til viðbótar fær maður aðgang að innri vef JSB sem er fullur af fróðleik um heilsu og mataræði og einnig fullur af alls konar uppskriftum af hinu og þessu í hollari búning. Námskeiðið er því tilvalið fyrir konur sem þurfa einfaldlega að læra hvernig sé best að sinna líkamanum af því að rétt eins og allt annað þá er það ekki meðfædd kunnátta og tekur sinn tíma að læra.

ágúst 2011 - desember 2011

Á fjórum mánuðum missti ég 11 kíló. Það var í raun minnsti gróðinn af þessu námskeiði af því ég lærði svo gríðarlega margt sem ég bý að alla ævi. Ég lærði á líkama minn, lærði hvernig honum líður best og varð örugg með mig líkamlega. Ég lærði um næringuna í matnum og hvernig er best að setja hana saman. Ég lærði hvernig ég á að hreyfa mig og hvaða vöðva ég nota við að gera æfingarnar. Ég lærði að hafa gaman af líkamsrækt og var farin að ögra sjálfri mér í æfingunum en því hafði ég aldrei kynnst hjá sjálfri mér. Ég fann  líka hvað mér leið miklu betur ef ég borðaði grænmeti, ávexti, mjólkurvörur og kolvetni yfir daginn í stað þess að borða nær eingöngu kolvetni líkt og ég hafði gert áður. Þegar maður venur sig á að borða fjölbreytt þá verður líkaminn (eða að minnsta kosti minn) háður því. Ég finn það alveg á mér þegar ég hef ekki fengið mér ávöxt yfir daginn, það er eins og það vanti eitthvað í mig. 

Það er liðinn dágóður tími síðan ég hætti á námskeiðunum hjá JSB. Ég hef vissulega hreyfst aðeins til í þyngd en ég hef samt haldið mig á sömu fimm kílóunum. Áður þá bætti ég á mig 10-15 kílóum á álíka löngum tíma. Ég hef haldið í sömu matarvenjur og borða miklu fjölbreyttari fæðu en ég gerði áður. Í kjölfarið hef ég fengið meiri áhuga á mat og hef gaman af því að smakka nýja hluti og get seint kallast matargikkur lengur. Ég hætti í JSB eftir að hafa verið þar í tvö ár og skráði mig í World Class. Það gerði ég af ýmsum ástæðum, mig vantaði ræktarfélaga, vildi prófa eitthvað nýtt og hreyfa mig í öðruvísi umhverfi. Ég mun þó alltaf hugsa hlýtt til JSB og mæli hiiiiklaust með TT námskeiðunum fyrir allar konur og stúlkur sem vilja læra að hreyfa sig og sinna heilsunni. Námskeiðið er skemmtilegt og svoleiðis uppfullt af fróðleik að ég á engin orð yfir það. Ef einhver hefur frekari spurningar um námskeiðið þá má endilega senda mér línu.

Ég er enginn guð í þessum málum, hér er ég einfaldlega að segja frá minni reynslu. Ég er heldur ekkert fullkomin í dag, það kemur alveg fyrir að ég dett í gömlu matarvenjurnar og gleymi að hreyfa mig. Það sem er breytt er að ég finn fyrir löngun og þörf til að borða hollt og fjölbreytt og hreyfa mig. Ég er orðin háð því að hlúa vel að líkama mínum og geri það að staðaldri. Þegar ég byrjaði á þessu datt mér ekki í hug að ég myndi endast svona lengi og að þetta gæti í raun og veru orðið að lífsstíl hjá mér. Ef mér tókst það þá held ég að allir geti það. Ég var þekkt fyrir það á tímabili að borða ekki grænmeti og mér þótti fátt leiðinlegra en að hreyfa mig. 

Nú er þetta orðið heldur langt hjá mér, takk fyrir að lesa.
 x
hldr

Engin ummæli:

Skrifa ummæli