fimmtudagur, 30. janúar 2014

Veistu hvort ég má þetta?

Um daginn hafði ég rölt til vinkonu minnar til að fá lánaða skó hjá henni. Þegar ég var um það bil hálfnuð heim og var að ganga í gegn um einbýlishúsahverfi sá ég litla stelpu sem gekk hinum megin við götuna. Hún var með skólatösku á bakinu og var annars hugar á göngunni, stoppaði til að skoða laufblöð og þess háttar. Við röltum samferða hvor sínum megin götunnar litla stund þar til stelpan gekk upp tröppur að húsi sem ég gerði ráð fyrir að væri heimili hennar. Þegar ég var komin spölkorn í burtu og var farin að hugsa um annað heyrði ég kallað á mig. Þegar ég sneri mér við sá ég að stelpan var hlaupin fram hjá húsi sínu og var augljóslega að yrða á mig þar sem enginn annar var í augsýn.

Ég gekk til hennar og spurði hvað amaði að og hún tilkynnti mér smeyk að það væri enginn heima og að hún kynni ekki að vera ein heima. Ég spurði hana til nafns, sagði henni hvað ég héti og sagðist ætla að hjálpa henni. Við röltum að húsinu hennar og hún sagði mér á meðan að hún væri sko að koma allt of seint heim úr skólanum og samt væri enginn heima. Annars hugar sagði hún mér frá því að systur hennar tvær færu stundum til vinkvenna sinna og þess vegna væri líklegast enginn heima. Þar sem enginn kom til dyra ákváðum við að hringja í móður hennar en stúlkan kunni símanúmerið hennar upp á hár. Þegar ég hringdi fékk ég tilkynningu um að ekki væri næg innistæða fyrir símtalinu. Ég var ekki lengi að kippa því í lag með snjallsímatækninni en á meðan ég gerði það var eins og það rynni upp ljós fyrir stúlkunni.

"Veistu hvort ég má þetta?"

Spurningin kom óvænt en það var alveg ljóst að um leið og hún fór að velta þessu fyrir sér varð hún mun hræddari við aðstæðurnar sem hún hafði komið sér í, hún varð hálfklökk og fór að tárast. Ég átti afar erfitt með að svara spurningunni, þarna hafði hún sem sagt áttað sig á því að hún var að ræða við ókunnuga manneskju en hún hafði greinilega verið vöruð við því. Spurningin vafðist fyrir mér af því ég var augljóslega ókunnuga manneskjan þarna og það sem ég segði væri alltaf eitthvað sem hún ætti að vara sig á og setja spurningarmerki við. Ég endaði á að svara henni í flýti að ég vissi það ekki en að ég ætlaði bara að aðstoða hana og að ég væri voða góð og eitthvað þess háttar. 

Ef ég hefði verið önnur manneskja sem væri þannig þenkjandi að ég ætlaði að misnota þessar aðstæður þá hefði ég að öllum líkindum sagt nákvæmlega það sama. Þá hefði ég getað þóst hringja í móður hennar og sagt henni að hún ætti að koma með mér. Mig hryllti við því að hafa svarað henni á þennan hátt og fannst agalegt að geta ekki sannfært hana fyllilega um að ég ætlaði ekki að gera henni neitt illt.

Ég náði mér loks í inneignina og hringdi í móður stúlkunnar. Hún var skammt undan, þakkaði mér fyrir en virtist þó fremur önug en þakklát í símann. Hún sagðist verða komin eftir tvær mínútur og ég sagði dóttur hennar það. Sú varð ögn áhyggjufull á svip þegar ég fór að sýna á mér fararsnið og því bauðst ég til að bíða með henni þar til mamma hennar væri komin. Hún var því fegin og við spjölluðum á meðan við biðum og hún sagði mér meðal annars að hún væri sex ára gömul.

Þegar mamma kom brast stelpugreyið í grát, ég kvaddi og gekk heim á leið. Ég átti erfitt með að gleyma þessu og þetta sat í mér í nokkra daga. Mér fannst svo slæmt að hafa ekki getað fullvissað stúlkuna um að það væri í lagi að biðja mig um aðstoð. Ég vissi innst inni að auðvitað mátti hún þetta ekki. Hún var vissulega fljót að hugsa og fékk aðstoð frá mér en ég gat ekki annað en hugleitt það hvernig þetta hefði getað farið ef þetta hefði ekki verið ég. Þá á ég auðvitað við hvað hefði getað gerst ef einhver sem væri til dæmis haldinn barnagirnd hefði verið úti að ganga á þessum stað, á þessum tíma. 


Það sem ég hefði viljað segja við stúlkuna ef spurningin hefði ekki komið svona flatt upp á mig er eitthvað á þessa leið:

Þú verður að spyrja mömmu þína að því þegar hún kemur. Ég ætla bara að hjálpa þér og það er allt í lagi að vita ekki hvað maður á að gera þegar svona gerist í fyrsta sinn. En þegar mamma kemur skaltu spyrja hana: "Mamma, hvað á ég að gera þegar enginn er heima? Á ég að gera eins og ég gerði núna eða á ég að gera eitthvað öðruvísi?" Þú veist að það á ekki að tala við ókunnuga en við ætlum að leysa þetta saman og það verður allt í lagi. En mundu að tala við mömmu og spyrja hana svo þú vitir hvað þú átt að gera næst. Þegar maður er sex ára þá er svo margt sem maður á eftir að læra betur og þá er besta leiðin að spyrja. Ef maður gerir einhver mistök þá er best að spyrja hvernig á að gera betur og læra af því. Þú er hugrökk og dugleg að leysa vandann alveg sjálf en best væri að vita hvernig þú ættir að leysa svona mál næst.

hldr

Engin ummæli:

Skrifa ummæli